Wilhelm Reich og lífsorkan

Wilhelm Reich og lífsorkan

Wilhelm Reich (1897–1957) var austurískur geðlæknir sem þróaði heillandi og umdeilda kenningu um alheimslega lífsorku sem hann nefndi orgon.

Strax á fjórða áratugnum sagði hann fyrir um stórfelldar breytingar í kynferðismálum og samskiptum innan hjónabandsins og fjölskyldunnar.

Hann setti fram djarfar tillögur varðandi uppeldismál, menntamál og stjórnmál, sem fyrst nú er verið að taka til alvarlegrar umhugsunar.

Uppgötvanir hans á sviðum eins og læknisfræði, líkamstjáningu og sambandi líkama og hugar hafa haft djúp áhrif á menningu okkar tíma.

Hér verður fjallað í stuttu máli um lífshlaup og helstu uppgötvanir Reichs. Lesendur eru hvattir til að kynna sér orgon-rannsóknir hans nánar með því að smella á tengilinn í myndskeiðið hér fyrir neðan.

 

Efnisyfirlit

 

Wilhelm Reich var í upphafi talinn einn efnilegasti lærisveinn Sigmunds Freud. Kynlífskenning Reichs, nýstárleg meðferðartækni og brautryðjandastarf á sviði geðverndar- og þjóðfélagsmála leiddi hann fljótt út fyrir raðir sálgreinenda.

Í bókinni Your Body Works skilgreinir breski sállæknirinn David Boadella lífeflismeðferð sem ,,kerfi af aðferðum til að virkja líforku mannsins þegar ýmis tjáningarform hennar hafa á einhvern hátt raskast”.

Hann segir einnig: ,,Meðan flest sállækningarkerfi notast að mestu við orðrænar aðferðir til að meðhöndla einkenni taugaveiklunar beinum við athygli okkar að heildaratferli einstaklingsins. Þannig höfum við meðal annars áhuga á spennumynstri líkamans, hreyfihæfni og hrynbundnu ferli hans, eins og til dæmis önduninni.”

Dr. Wilhem Reich og mikilvægi kynlífsinsFara efst

Lífeflismeðferð hefur vaxið upp úr verkum og starfi dr. Wilhelms Reich. Wilhelm Reich fæddist árið 1897 á sveitabýli við landamæri Ungverjalands og Austurríkis. Þegar Reich stundaði nám í læknisfræði við háskólann í Vínarborg ritaði hann í dagbók sína:

,,Ef til vill stríðir siðgæðisvitund mín gegn því en hvað sem því líður þá hef ég út frá minni eigin reynslu og athugun á sjálfum mér og öðrum komist að þeirri niðurstöðu að kynferðislíf sé sú miðja er allt félagslíf, sem og innra líf einstaklingsins, snýst í kringum.”

Þessi hugsun átti eftir að móta vísindastarf hans framan af og leiða hann inn á brautir sem engum óraði fyrir, allra síst honum sjálfum.

Á námsárum sínum kynntist hann starfi Sigmunds Freud og aðeins 23 ára gamall gekk hann í Samband sálgreinenda og varð fljótlega einn efnilegasti nemandi Freuds.

,,Samkvæmt kenningum Reichs felur heilbrigð kynfullnæging í sér munúðarkenndan skjálfta alls vöðvakerfisins, tilfinningalegt ástríki og vitundarlegt algleymisástand.”

Í starfi sínu sem sálgreinandi varð Reich sannfærður um að meginorsök taugaveiklunar væri truflun á orkubúskap einstaklingsins. Reich gerði ráð fyrir því að orkan, sem hér ætti hluti að máli, væri orka kynhneigðanna og líffræðilegs eðlis. Heilbrigt kynlíf er þess vegna forsenda almenns heilbrigðis í geðheilsufræði Reichs.

Truflun á þessari náttúrulegu starfsemi er hins vegar algeng í nútímasamfélagi. Félagslegar rannsóknir hafa leitt í ljós að margar konur fá ekki fullnægingu og þó karmönnum rísi hold og þeir fái sáðlát þá er kynlífsánægjan oft fjarverandi.

Ástæðurnar taldi Reich meðal annars vera vöntun í bernsku á þeirri ánægju sem líkamssnerting veitir ásamt almennri tilhneigingu til að bæla tilfinningalega og kynferðislega tjáningu í fjölskyldugerð nútímans.

Samkvæmt kenningum Reichs felur heilbrigð kynfullnæging í sér munúðarkenndan skjálfta alls vöðvakerfisins, tilfinningalegt ástríki og vitundarlegt algleymisástand. Hlutverk hennar er algjör afhleðsla hinnar líffræðilegu orku.

Þegar slík afhleðsla á sér ekki stað, sökum líkamlegra og tilfinningalegra hafta, verður til umframorka. Umframorkan verður síðan aflgjafi taugaveiklunar og fær meðal annars útrás í formi vöðvaspennu, kvíða, árásarhneigðar og ýmissa sállíkamlegra sjúkdóma.

Wilhelm Reich

Reich, ásamt syni sínum Peter. Eitt merkasta framlag Reich til geðlæknisfræðinnar er uppgötvun vöðvabrynjunnar. Vöðvabrynja er samfellt mynstur spenntra og slappra vöðva sem einstaklingurinn myndar sem vörn gegn afneituðum tilfinningum, einkum kvíða, ýgð og kynferðislegri örvun. Vöðvabrynjan er liðskipt og greinist í sjö hluta sem ganga þversum á líkamann frá höfði til fóta. Með því að losa um vöðvaspennuna og koma á eðlilegri öndun brýst tilfinningin fram af endurnýjuðum krafti.

Reich taldi því mikilvægt að endurheimta hjá skjólstæðingum sínum náttúrulega hæfileika til ásta. Í upphafi notaði hann sálgreiningaraðferð Freuds en uppgötvaði fljótt annmarka hennar.

Hlutverk skapgerðarbrynjunnarFara efst

Sálgreining var upphaflega bein túlkun á frásögn sjúklingsins. Markmið hennar var að finna rætur vandans í bældri tilfinningareynslu bernskuáranna. Fljótlega kom þó í ljós að upprifjun á löngu gleymdri bernskureynslu hafði engan bata í för með sér nema hin innibyrgða tilfinning kæmi fram af endurnýjuðum krafti.

Freud breytti þess vegna meðferðinni með því að leggja megináherslu á að ýta undir endurlifun tilfinningatengdra minninga. Margir sjúklinga hans voru á hinn bóginn ófærir um að komast í samband við tilfinningar sem þeir höfðu áralangt haldið í skefjum.

Eitthvað virtist koma í veg fyrir slíka endurlifun. Freud nefndi þessa mótstöðu sjúklingsins gegn eigin bata ,,viðnám” og olli það miklum vandkvæðum í meðhöndluninni.

Wilhelm Reich var fyrsti kennimaður sálgreiningar til að uppgötva eðli viðnámsins og finna áhrifaríka leið til að yfirvinna það. Honum varð ljóst að einstaklingurinn nýtir umframorkuna, sem áður var minnst á, til að mynda skapgerðarbrynju (character armor), þ. e. kerfi skapgerðareinkenna sem verndar hann gegn tifinningum og hneigðum sem hann vill ekki sýna.

Hér er átt við dæmigerð einkenni einstaklings – svo sem raddhreim, augnaráð, kæki, líkamshreyfingar og annað fas – sem eru varanleg og auðkenna hann frá öðrum þótt aðstæður og umhverfi kunni að breytast. Þannig getur til dæmis ofaukin hjálpsemi borið vott um vörn gegn pyntingarlosta eða árásargirni.

Skapgerðarbrynjan hefur heftandi áhrif á einstaklinginn og veldur því að hann bregst við síbreytilegum aðstæðum á fyrirfram ákveðinn hátt. Hann er háður ákveðinni persónumótun og á erfitt með að breyta viðmóti sínu og viðbrögðum í samskiptum við annað fólk.

Líf hans er bundið fjötrum vanans og í stað raunverulegrar lífsgleði verður vart við depurð og daufingjahátt. Persónan veit ekki hvað hún vil eða hefur ekki lengur dug til að skapa sér markmið og koma þeim í framkvæmd. Orkuleysi og óttinn við að taka áhættu og þegar betur er að gáð ábyrgð á eigin lífi verður allsráðandi.

Skapgerðargreining verður tilFara efst

Í framhaldi af þessari uppgötvun tók Wilhelm Reich að þróa eigin aðferðir til að rjúfa skapgerðarbrynjuna. Hann gagnrýndi hefðbundna sálgreiningu fyrir að leggja ofuráherslu á munnlega tjáningu og að týna sér í fræðilegri skilgreiningu á fortíðinni.

,,Wilhelm Reich var fyrsti kennimaður sálgreiningar til að uppgötva eðli viðnámsins og finna áhrifaríka leið til að yfirvinna það.”

Þess í stað hvatti hann skjólstæðinga sína til að beina spjótum sínum að því sem er að gerast hér og nú. Til mótvægis við hefðbundnar freudískar aðferðir tók Reich að veita líkama og heildaratferli sjúklingsins athygli. Út úr því las hann ýmislegt sem kom honum að gagni í meðferðinni.

Þessi sállækningaraðferð var nefnd skapgerðargreining (Character Analysis) og hafði að markmiði að gera sjúklinginn meðvitaðan um skapgerðarbrynju sína, eðli hennar og tilkomu. Þegar vel tókst til átti sér ekki aðeins stað víðtæk breyting á persónuleikanum heldur jafnframt á líkamanum.

Langvarandi vöðvaspennu létti, óheppileg líkamsstaða breyttist, hreyfihæfni jókst og öndunin dýpkaði. Þetta kom á óvart því fram að þeim tíma höfðu sálfræðingar og geðlæknar ekki gert sér grein fyrir hlutverki líkamans í bælingu tilfinninga.

Hemlakerfi líkamansFara efst

Wilhelm Reich hóf nú nákvæma rannsókn á spennuástandi vöðva í líkama sjúklinga sinna. Hann varð þess vís í starfi sínu að margir sjúklinganna höfðu líflausa framkomu, líkt og eðlileg starfsemi þeirra væri hömluð á öllum sviðum. Kynferðislíf þeirra hafði ekki einungis raskast og starfsgetan beðið hnekki heldur var öndunin hamin.

Rannsóknir Reich leiddu í ljós að vöðvakerfið er oft notað sem hemlakerfi til að stöðva framrás tilfinninga. Með því að hemja öndunina og spenna vöðva, sem hafa mest með tjáningu að gera, myndast samfelld vöðvabrynja (muscular armor) sem byrgir inni upplifun sem ekki má sýna. Mismunandi spennumynstur einstaklinga endurspegla hvernig þeir bregðast við umhverfi sínu og segir til um hvernig samskiptum þeirra við foreldra og nákomna var háttað.

WR: Mysteries of the Organism

Til að vega upp á móti ítökum Hitlers og nasismans meðal þýskrar æsku stofnaði Reich Sex-Pol, samtök um kynferðislegar úrbætur. Þar flutti hann fyrirlestra um kynferðismál, barnauppeldi, fjölskylduna og breytt samlífsform. Reich gerði kröfur um frjálsari skilnaðarlöggjöf, frjálsan aðgang að getnaðarvörnum og jafnrétti homma og lesbía, svo eitthvað sé nefnt. Tékkneski kvikmyndaleikstjórinn Dušan Makavejev gerði kynlífskenningum Reichs góð skil í kvikmyndinni WR: Mysteries of the Organism. Myndin hér að ofan er tekin úr kvikmynd Makavejevs, sem var bönnuð í heimalandi hans, Júgóslavíu, þegar hún birtist fyrst árið 1971.

Þannig má líta á vöðvabrynjuna sem birtingarform bernskureynslunnar. Á sama hátt og öll reynsla einstaklingsins er skráð einhvers staðar í heilaberkinum og hægt er að framkalla hana aftur með til dæmis vægum rafstraumi er öll bæld tilfinningareynsla geymd í vöðvunum.

Þetta skýrist betur með einföldu dæmi. Barn sem getur ekki grátið vegna nálægðar foreldra sinna, eða af öðrum orsökum, stöðvar grátinn með því að bíta saman tönnunum, herpa vöðva í hálsi og kviði og spenna aðra vöðva er tækju annars þátt í grátinum.

Ef þetta gerist oft myndast á þessum stöðum langvarandi vöðvaspenna er verður brátt ómeðvituð ásamt hinni upprunalegu tilfinningu sem hefur verið bæld.

Á fullorðinsárum ætti slík manneskja erfitt með að gráta og tjá tilfinningar sínar að öðru leyti. Vöðvar í hálsi, brjósti og kviði eru herptir og öndunin hamin.

Hin bælda tilfinning, eða öllu frekar orka hennar, varðveitist þannig í strengdum vöðvum líkamans.

Með því að losa um vöðvaspennuna og koma á eðlilegri öndun brýst tilfinningin fram og spennuástand vöðvanna færist í eðlilegt horf.

Úr viðjum vöðvabrynjunnarFara efst

Frekari rannsóknir leiddu í ljós að einstaklingar mynda sem vörn gegn afneituðum tilfinningum, einkum kvíða, ýgð og kynferðislegri örvun, sjö belti af spenntum vöðvum sem ganga þversum á líkamann frá höfði til fóta.

Reich uppgötvaði að auðveldast er að veita bældum tilfinningum jákvæða útrás með því að vinna beint með strengda vöðva líkamans. Vöðvabrynjan er liðkuð með sérstökum hreyfingum, öndun, nuddi og fleiru.

Yfirleitt er byrjað efst með höfuð- og andlitsvöðva og unnið niður eftir líkamanum og endað á stjörfum vöðvum mjaðmagrindarinnar. Reich notaði einkameðferð í þessum tilgangi.

Útlistun Reichs á vöðvabrynjunni og þær leiðir sem hann þróaði til að losa fólk úr viðjum hennar er af mörgum talin eitt merkasta framlagið til sállækninga á þessari öld. Aðferðir hans þykja gefa góðan og víðtækan árangur.

Þrátt fyrir það notfæra sálfræðingar sér ekki þessa þekkingu. Flestir þeirra láta sér nægja meðferðartækni sem byggir á viðtölum og atferlismótun og lætur líkamann að öllu leyti afskiptan. Geðlæknar ganga jafnvel enn þá skemur. Þeir láta sér yfirleitt nægja að skrifa upp á geðlyf eða róandi lyf.

Ásteytingarsteinn og hneykslunarhella Fara efst

Í sálarfræði þeirra tíma skorti alla hefð fyrir nálgun Reichs og mætti hún því litlum skilningi. Áhersla hans á mikilvægi líkamlegrar munúðar og hlutverk samfélagsins í að hindra kynferðislega tjáningu fór fyrir brjóstið á mörgum broddborgurunum.

Freud var orðinn þreyttur á öllu fjaðrafokinu í kringum Reich og ekki síst þegar starfsfélagar hans fóru að kvarta undan því að Reich ,,snerti” skjólstæðinga sína. Það þótti einnig meiri háttar hneyksli þegar Reich hóf vísindalega athugun á áhrifum kossa, atlota og annarrar kynörvunar á líkamann.

,,Ákveðnir aðilar tóku að grafa undan Reich. Sá orðrómur gekk fjöllunum hærra að hann fróaði kvensjúklingum sínum og skipulegði kynsvall á laun.”

Ákveðnir aðilar innan Sálgreiningarsambandsins tóku að grafa undan Reich. Sá orðrómur gekk fjöllunum hærra að Reich fróaði kvensjúklingum sínum og skipulegði kynsvall á laun.

Uppgötvanir Reichs á sviði kynferðismála, líkamstjáningar og sambands hugar og líkama þóttu stinga í stúf við kennisetningu Freuds. Geðlíkamsmeðferð Reichs hafði einnig sett hann út fyrir raðir sanntrúaðra sálgreinenda. Róttækar stjórnmálaskoðanir Reichs og óvægin gagnrýni á nasismann olli ugg hjá Freud og fylgismönnum hans.

,,Vel metnir” meðlimir vísindafélaga skömmuðust sín fyrir Reich því hann tók þátt í mótmælagöngum og útbýtti dreifiblöðum á götuhornum. Gekk jafnvel í hús með söfnunarbauka til styrktar ekkjum sem misst höfðu menn sína í ofbeldisaðgerðum nasista.

Um þetta leyti voru flestir búnar að fyrirgefa Freud fyrir að hafa uppgötvað kynvitund barna og hann var óðum að öðlast almenna viðurkenningu. Reich þótti til vandræða.

Sex-PolFara efst

Til að vega upp á móti ítökum Hitlers meðal æskunnar opnaði Reich kynfræðslustöðvar fyrir ungt fólk. Þar flutti hann fyrirlestra um kynferðismál, barnauppeldi, fjölskylduna og breytt samlífsform. Hann gerði kröfur um frjálsari skilnaðarlöggjöf, frjálsan aðgang að getnaðarvörnum og jafnrétti homma og lesbía, svo eitthvað sé nefnt.

Orgon-safnari

Heimasmíðaður orgon-safnari. Orgon-safnarinn hefur þrjú lög af lífrænum og ólífrænum efnum. Viðurinn dregur orgonorkuna að sér á meðan járnplatan kastar henni frá sér. Margt bendir til að orgon sé sama fyrirbærið og Forn-Indverjar nefndu ,,prana”, Karl von Reichenbach skýrði ,,od” og rússneskir vísindamenn nefna ,,bíoplasma”. Dæmi eru um að fólk hafi læknað sig af illkynjuðu krabbameini með því að nota orgon-safnara og orgon-teppi. Þeir sem vilja kynna sér orgon-lækningar nánar er bent á eftir dr. James DeMeo.

Í samvinnu við Kommúnistaflokk Þýskalands hratt hann af stað Sex-Pol, fjöldahreyfingu um kynferðislegar úrbætur. Leiðtogar kommúnista reyndust hins vegar vera jafnstífir og kynferðislega bældir og fjöldinn sem þeir vildu frelsa. Þegar róttækni Reichs hafði gengið fram af hugmyndafræðingum flokksins létu þeir af stuðningi við hann og rit hans voru tekin úr umferð.

Þeir lýstu því yfir að ,,kynferðisleg bæling þekktist aðeins meðal borgarastéttarinnar” og að ,,starf Reichs saurgaði hinn byltingarsinnaða anda”. Wilhelm Reich var því rekinn úr Kommúnistaflokki Þýskalands árið 1932.

Ári síðar var hann jafnframt rekinn úr Alþjóðasambandi sálgreinenda. Þegar dr. Anna Freud og aðrir stjórnarmenn sambandsins fréttu að Reich hefði útvegað unglingum getnaðarvarnir þótti þeim nóg um.

Ofsóttur hugsuðurFara efst

Skömmu síðar var hann eftirlýstur af nasistum því útlistun hans á fjöldasálfræði fasismans var þeim ekki að skapi. Vegna ofsókna nasista hrökklaðist Reich til Danmerkur. Þar var honum lýst sem ,,júðskum klámhundi”, meðal annars vegna þess að hann var ekki meðmæltur hörðum refsingum sem svari við sjálfsfróun barna.

Hann fór því til Svíþjóðar en fékk litlu betri móttökur þar. Ýmsir læknar og sálfræðingar töldu að ,,heppilegra væri fyrir lögregluna að vísa þessum öfugugga úr landi áður en hann tæki til við að spilla sakleysi sænskrar æsku”.

Hann sá þann kost vænstan að flytja til Noregs. Þar var hann látinn óáreittur þangað til hann uppgötvaði áður óþekkta lífsorku sem hann nefndi orgon.

Norsk dagblöð níddu þessa uppgötvun niður með flennistórum fyrirsögnum eins og GUÐ REICH SKAPAR LÍF. Ýmiss konar óhróður og slúður fylgdi síðan daglega í kjölfarið.

Reich svaraði þessu engu en ákvað þess í stað að flytja til Bandaríkjanna. Við komuna til New York var hann handtekinn og ákærður fyrir að vera nasisti! Honum var síðan sleppt eftir stutt gæsluvarðhald.

Orgon-rannsóknir Wilhelms ReichFara efst

Í Bandaríkjunum fékk hann að starfa í friði framan af. Hann hóf nú af miklum móði rannsóknir á eðli orgon-orkunnar. Fljótlega hafði hann fundið raunvísindalegar aðferðir til að mæla líforkuna, gera hana sýnilega og safna henni saman.

Reich hannaði sérstakan líforkusafnara (orgone accumulator) sem nota má til að hlaða líkamann upp af orgoni. Þessi safnari var síðan notaður til rannsókna á krabbameini og til að stemma stigu við öðrum sjúkdómum sem hefðbundnar læknisaðferðir duga lítt til.

,,Fljótlega hafði Reich fundið raunvísindalegar aðferðir til að mæla líforkuna, gera hana sýnilega og safna henni saman.”

Bandarísk blaðakona skrifaði rætna grein um rannsóknir Reichs. Sagði hann selja sjúklingum sínum ,,kynlífsbox” sem bæta ætti ,,kynfullnæginu” þeirra. Í framhaldi af því kærði Matvæla- og lyfjaeftirlit ríkisins (FDA) Reich fyrir brot á skottulækningalöggjöfinni á þeirri forsendu ,,að líforkulækningar geta ekki náð árangri þar sem engin líforka er til”. Wilhelm Reich var dæmdur í tveggja ára fangelsi og öll helstu ritverk hans brennd á báli, fyrst árið 1956 og síðan 1962.

Þá höfðu útgáfur stærstu verka hans verið bannaðar í þremur ríkjum, Þýskalandi, Sovétríkjunum og Bandaríkjunum, sem augljós ógnun við öryggi og velferð mannkyns.

Allir líforkusafnarar sem náðist í voru jafnframt eyðilagðir. Smíði þeirra og notkun, hvort sem var til lækninga eða vísindarannsókna var stranglega bönnuð.

Wilhelm Reich lést af hjartaáfalli árið 1957 í bandarísku alríkisfangelsi.

Samtímaáhrif Wilhelms ReichFara efst

Reich á leið í fangelsi

Wilhelm Reich í handjárnum á leið í fangelsi í fylgd alríkislögreglumanns. Helstu ritverk Reichs, tímarit og rannsóknarskýrslur voru brenndar á báli í New York fyrst árið 1956 og síðan 1962. Alls sex tonn af prentuðu efni. Þá voru allir orgon-safnarar sem til náðist eyðilagðir.

Eftir dauða Reichs þróuðu nemendur hans lífsstarf hans í ýmsar áttir. Dr. Walter Hoppe starfar í Ísrael við rannsóknir á notagildi orgon-orkunnar og hefur náð eftirtektarverðum árangri í krabbameinslækningum.

Dr. Alexander Lowen er upphafsmaður lífeflislækninga og breski sállæknirinn David Boadella hefur skapað árangursríkar aðferðir í einkameðferð og hópvinnu. Boadella hefur haldið nokkur námskeið hér á landi og sýnt á snilldarlegan hátt ,,hvernig líkaminn segir hug sinn”.

Charles Kelley tvinnaði saman lífeflismeðferð Reichs og augnaþjálfun dr. W.H. Bates og hefur þróað leiðir til að ráða bót á nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju.

Gestalt-meðferð, Rolfing og frumópslækningar Arthurs Janov, ásamt ógrynni af öðrum sállíkamlegum aðferðum, eru jafnframt undir miklum áhrifum frá Reich.

Ólíkt Reich hafa flestir sporgöngumenn hans unnið með hópa og notfært sér þannig möguleika venjulegs fólks til að hafa jákvæð áhrif hvert á annað. Lífefli er þess vegna ekki aðeins meðferð við taugaveiklun heldur einnig heppileg sálvaxtarleið fyrir alla sem vilja auðga líf sitt.

Í formi námskeiða er unnið með ýmsar aðferðir sem miða að því að veita bældum tilfinningum jákvæða útrás og auka sjálfskennd samfara líkamlegri vellíðan. Námskeiðin gefa fólki innsýn í eigið tilfinningalíf og æfa það í að tjá sig af hreinskilni. Margir taka reglulega þátt í slíkum námskeiðum á meðan aðrir iðka æfingar þeirra í heimahúsum.

Þrátt fyrir að kenningar Wilhelms Reich njóti vaxandi virðingar um heim allan skortir enn þá á að fagmenn kunni að beita þeim. Þetta á einkum við uppgötvanir hans á eigindum orgon-orkunnar. Kynslóðir þessa árþúsundar eiga væntanlega eftir að færa sér þessa merku uppgötvun hans í nyt.

Orgone

Prentvæn útgáfa Prentvæn útgáfa Senda með tölvupóst Senda með tölvupóst

HeimildirFara efst

Wilhelm Reich. 1967. The Function of the Orgasm. New York: Bantam.
Wilhelm Reich. 1969. Selected Writings. New York: Noonday Press.
Elsworth F. Baker. 1967. Man in the Trap. New York: Avon.
W. Edward Mann. 1973. Orgone, Reich & Eros. New York: Touchstone.

Wilhelm Reich and the Orgone EnergyFara efst